Spyrjandi : Yngvi Þór
Viðmælandi : Jón Erlings
Eftir að Erlingur ( sonur ) keypti fyrstu tölvuna, datt mér í hug að kanna hvort ekki væri hægt að gera eitthvað annað en bara spila tölvuleiki á hana. Við sökktum okkur í bæklinga og kennslubókina, sem fylgdu með tölvunni og smátt og smátt fengum við hugmyndina að því að skrifa leikinn.
Hvar lærðuð þið að búa til tölvuleiki og hvaða forritunar mál notuðuð þið ?
Við lærðum mest allt í gengum kennslubókina sem fylgdi með. Þar var kennt forritunarmálið Basic og smá tilsögn í Assembler.
Hvernig var vinnuferlið og hversu langan tíma tók að búa þennan leik til ?
Það tók um 2 ár að gera leikinn. Þetta var áhugamál hjá okkur og við notuðum frítímann eftir vinnu og skóla í þetta. Við skiptumst á að nota tölvuna og skrifuðum litla búta í einu og vistuðum á kasettu, það tók sinn tíma.
Hvaða áskorunum lentuð þið í við að forrita leikinn á Sinclair Spectrum ?
Sinclair Spectrum 48K var í sjálfu sér í raun áskorun að nota. Tölvan var lítil með gúmmítökkum, sem gerði innsláttur erfiðan. Við þurftum að skipta um lyklaborð á vélinni allavega tvisvar þar sem prentið á tökkunum máðist út. Að auki var tölvan ekki með íslenska stafi, svo við gerðum tvær leturgerðir (font-face) með íslenska stafi, önnur var fyrir leiðbeiningarnar og hin fyrir sjálfan leikinn.
Það var þónokkur áskorun að ná tökum á Assemplernum og eyddi ég löngum tíma í að læra á hann. Með Assemplernum gátum við fært línu af punktum um einn punkt, og þar með fengið möguleika á að láta grafík eins og texta færast “scroll” til hliðar. Þannig gátum við gefið leikmönnum upplýsingar á meðan á leiknum stóð án þess að trufla leikinn. Assemplerinn gaf okkur líka möguleika á að nota önnur hljóð en Basic, svo við gátum gefið sprengingum alvöru sprengjuhljóð. Við lærðum ýmislegt af tölvutímaritum sem hjálpaði mér með t.d. Assembler.
Grafíkin var mjög takmörkuð þar sem við höfðum aðeins 8x8 punkta með tveimur litum. Punktarnir þurftu að passa saman í eins konar grid og það tók langan tíma að gera það vel.
Við einblíndum á að gefa leiknum fagmanlegt brag, svo hann liti bæði vel út og væri góður að spila, og það eitt var ein stór áskorun.
Ég sá að það stendur Kaupfélag Skagfirðinga í byrjun leiksins, áttu þeir einhvern þátt í
markaðsetningu og sölu á leiknum og var hann yfir höfuð seldur í verslunum ?
Söluaðilar, eins og Kaupfélag Skagfirðinga, voru ekki tengdir markaðsetningunni. Fyrirtækin hringdu í okkur, eða við í þau, og pöntuðu ákveðið magn af leikjum, og áður en við sendum þeim leikina settum við nafnið á fyrirtækinu inn í leikinn sem einskonar þakklætisvott. Magni á Laugarveginnum seldi flesta leiki. Kasetturnar voru útbúnar í Hljóðrita í Hafnarfirði og Ingólfsprent prentaði miðana.
Nú var umgjörð leiksins mjög flott og vönduð, hvernig viðbrögð fékk leikurinn þegar hann kom út ?
Eins og fyrr hefur komið fram, lögðum við mikla natni í að gera leikinn fagmannlega og flottan. Við fengum í raun enga umfjöllun um leikinn nema þá að Magni á Laugarveginum hrósaði honum mikið. Við fengum oftast eina pöntun upp á fimm leiki frá þeim verslunum úti á landi, sem við sjálfir höfðum haft samband við og boðið leikinn til sölu. Það var auðvelt að afrita spóluna þannig það var sjaldgæft að fleiri pantanir bærust.
Voru áform að búa til aðra leiki eða gefa þennan leik út fyrir aðrar vélar ?
Við höfðum engin áform um að skrifa leikinn á aðrar tölvur. Þetta var í raun áhugamál og við höfðum gaman af því að læra og skrifa leikinn á meðan á því stóð. Við fundum fljótt út, eftir að leikurinn kom út, að markaðurinn á Íslandi væri allt of lítill til að einhver gæti hagnast á slíkri hugbúnaðargerð.
Hvað hafið þið verið að fást við síðan ?
Ég vann hjá Heyrnar og Talmeinastöð Íslands og hafði alfarið umsjón með tölvuvæðingu stofnunarinnar. Meðal forritunarverka minna eru:
- Heyrnarmælingaforrit með grafísku hniti, skrifað í Quick Basic á Apple. Forritið var tengt mælingatólum í gengum RS232 port og gat því stjórnað mælingatólunum.
- Alhliða gagnagrunns- og bókunarkerfi í bæði Filemaker og svo síðar endurhannað og skrifað í 4.th Dimension á Apple. Kerfið var umsvifamikið og hélt utan um allar læknaskrár stofnunarinnar. Kerfið var svo tengt mælingakerfinu sem sendi upplýsingar til gagnagrunnsins.
Erlingur flutti til Danmerkur í tölvuverkfræðinám árið 1996 og hefur verið búsettur þar síðan. Hann hefur komið að ýmsum verkefnum, stórum og smáum meðal annars:
- Tollaforritið Tollráð, sem hafði nýsköpun varðandi útprentun. Skatturinn á Íslandi breytti reglunum um hvernig skila ætti skýrslum til ráðuneytisins í kjölfar þess.
- Skrifaði í samvinnu við Proval, Einkabókhaldið fyrir Landsbankann
- Hannaði innkaupakerfi fyrir Kommune Data í Danmörku.
- Skrifaði lítið forrit, Access2Web sem færði gögn frá gagnagrunni yfir í HTML síður. Forritið kom út í Amerísku tímariti á CD og fékk einnig góða umfjöllun meðal annars fimm stjörnur dóma og var kosið forrit mánaðarins af tímaritinu.
- Var hjá Navision HQ og Microsoft Development Center í Danmörku í lengri tíma sem bæði forritari og notendaviðmótshönnuður (UX). Var meðal annars meðlimur í litlum vinnuhópi, sem sá um nýsköpun í hönnun. Útkoman var demo sem kynnt var á Microsoft Conference bæði í 2006 og 2007 sem Bill Gates Keynotes.
- Starfaði hjá Sitecore í Kaupmannahöfn sem notendaviðmótshönnuður.
- Starfar sem yfirmaður hönnunardeildar Adform í Kaupmannahöfn í dag.